(Go: >> BACK << -|- >> HOME <<)

Fara í innihald

Austurvöllur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 18. janúar 2009 kl. 14:12 eftir 89.160.136.166 (spjall) Útgáfa frá 18. janúar 2009 kl. 14:12 eftir 89.160.136.166 (spjall) (→‎Mótmæli Radda fólksins)
Nýja Kökuhúsið við Austurvöll árið 1975

Austurvöllur er lítið torg í miðborg Reykjavíkur. Á miðjum Austurvelli er stytta af Jóni Sigurðssyni, sjálfstæðishetju íslensku þjóðarinnar, hún snýr að Alþingishúsinu sem er einnig við Austurvöll. Austurvöllur er vinsæll samkomustaður fyrir Reykvíkinga á góðviðrisdögum. Þar hafa mótmæli oft átt sér stað sökum þess að Alþingi er þar nærri.

Austurvöllur afmarkast af götunum Vallarstræti, Pósthússtræti, Kirkjustræti og Thorvaldsensstræti. Síðastnefnda gatan er einmitt nefnd eftir Bertel Thorvaldsen, en stytta af honum stóð lengi á miðjum Austurvelli. Nú stendur stytta af Jóni Sigurðssyni þar sem hún stóð áður.

Í kring um Austurvöll standa margar af merkari byggingum borgarinnar, þar á meðal Alþingishúsið, Hótel Borg og Landssímahúsið (en þar voru höfuðstöðvar Póst og síma lengst af) og Dómkirkjan í Reykjavík. Austurvöllur er vinsæll meðal ungra Reykvíkinga á góðviðrisdögum. Ástæða þessa er sú að nokkur kaffihús, sem eru í byggingunum við Vallarstræti og Pósthússtræti, hafa borð og stóla utandyra þegar veður leyfir. Einnig er mikið setið á grasinu á Austurvelli sjálfum þegar þannig stendur á.

Austurvöllur var öllu stærri áður fyrr. Í upphafi 18. aldar náði Austurvöllur vestan frá Aðalstræti og austur að læk, norðan frá Hafnarstræti og suður að Tjörn.

Mótmæli við Austurvöll

Mikil hefð er fyrir því að mótmæla við Austurvöll. Ein fyrstu mótmæli sem þar áttu sér stað voru mótmæli vegna símamálsins svonefnda árið 1905 en þá söfnuðust þúsundir saman við Austurvöll.[1] Mörgum árum seinna áttu miklar óeirðir sér stað á Austurvelli miðvikudaginn 30. mars 1949, þegar til stóð að samþykkja þingsályktunartillögu um inngöngu Íslands í NATO. Við það tækifæri beitti lögreglan táragasi.

Mótmæli Radda fólksins

Í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008, hófust mótmæli á vegum Radda fólksins á Austurvelli, en forsvarsmaður þeirr er trúbadúrinn Hörður Torfason. Fyrstu mótmælin fóru fram þann 11. október 2008, og hafa farið fram á hverjum laugardegi síðan. Ekki sér fyrir endann á þeim.

Tilvísanir

  1. Bændafundurinn í Reykjavík frétt í blaðinu Ísafold, 4. ágúst 1905

Tenglar

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.