(Go: >> BACK << -|- >> HOME <<)

Töpuðu eftir fjórar framlengingar

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði níu mörk fyrir Kolstad.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði níu mörk fyrir Kolstad. AFP/Ina Fassbender

Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í Kolstad þurfa að fara í oddaleik um sigur í norsku úrslitakeppninni í handbolta eftir að hafa tapað í gær fyrir Elverum í fjórframlengdum leik á útivelli þar sem Sigvaldi var markahæstur Kolstadmanna.

Kolstad vann fyrsta leikinn á heimavelli og hefði verið sigurvegari úrslitakeppninnar með því að vinna í Elverum í gær. En þar unnu heimamenn upp forskot Kolstad á lokakaflanum og jöfnuðu metin í 32:32.

Við  tók ótrúlegur spennutryllir þar sem Elverum hafði betur eftir fjórar framlengingar, 41:40, og Tobias Gröndahl skoraði sigurmarkið, sitt ellefta í leiknum, úr vítakasti þegar tvær sekúndur voru eftir.

Sigvaldi skoraði 9 mörk fyrir Kolstad sem tekur nú á móti Elverum í oddaleik á heimavelli á miðvikudaginn. Þar er mikið í húfi því sigurliðið í úrslitakeppninni vinnur sér sæti í Meistaradeild Evrópu næsta vetur. Kolstad er hins vegar norskur meistari eftir að hafa unnið úrvalsdeildina í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert