(Go: >> BACK << -|- >> HOME <<)

Salvör fer ekki í framboð

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ákveðið að gefa ekki kost …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi forsetakosningum. mbl.is/​Hari

Salvör Nordal, umboðsmaður barna hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til embættis forseta Íslands í komandi kosningum. 

Hún tilkynnir þetta á Facebook-síðu sinni. 

Gott gengi í Maskínukönnun

Salvör kveðst fyrst hafa velt fyrir sér hlutverki embættisins eftir að hafa tekið þátt í umræðum um efnið í stjórnlagaráði á sínum tíma. 

Í kjölfarið skrifaði hún fræðigreinar um embættið sem valdtemprandi þátt í stjórnskipuninni og um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hún segist hafa fengið í gegnum árin hvatningu frá fjölmörgum um að bjóða sig fram og gaf sér umhugsunarfrest á síðustu vikum.  

Þrátt fyrir gott gengi í könnun á vegum Maskínu komst Salvör að þeirri niðurstöðu að bjóða sig ekki fram.

36% jákvæðir í hennar garð

Samkvæmt Maskínukönnuninni sem var framkvæmd þann 6. til 12. mars þar sem fjórir mögulegir frambjóðendur voru bornir saman voru 36% þátttakenda jákvæðir í hennar garð.

Til samanburðar voru 32% jákvæðir í garð Höllu Tómasdóttur, 39% jákvæðir í garð Ólafs Jóhanns Ólafssonar, sem gefið hefur út að hann fari ekki fram og 49% jákvæð í garð Baldurs Þórhallssonar.  

Mörg mikilvæg verkefni framundan

„Niðurstaðan er nú sem fyrr að bjóða mig ekki fram. Vissulega styttist í að ég ljúki tíma mínum sem umboðsmaður barna en þar eru fjölmörg mikilvæg verkefni framundan og einnig bíða ýmis hugðarefni tengd siðfræði, stjórnarskrármálum og lýðræði.

Ég þakka innilega hlýjar kveðjur og hvatningu á síðustu vikum. Þær munu verða mér mikilvæg hvatning á öðrum vettvangi,“ segir Salvör.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert