(Go: >> BACK << -|- >> HOME <<)

Björn hvorki á leið heim né á Bessastaði

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins, segir tímabært að annar taki …
Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins, segir tímabært að annar taki við keflinu eftir að hafa leitt spítalann í gegnum tímabil mikilla breytinga.

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska-sjúkrahússins í Stokkhólmi í Svíþjóð, kveðst hafa fundið að nú væri rétti tíminn til að finna sér annan starfsvettvang. Tekist hafi að ná þeim markmiðum sem hann hafði sett sér þegar hann tók við starfinu fyrir fimm árum síðan.

Í samtali við mbl.is segist hann nú meta atvinnutilboð sem honum hefur borist. Hann kveðst ekki vera á leið í forsetaframboð eða til annarra starfa á Íslandi.

Tilkynnt var um það í dag að Björn hefði sagt starfi sínu lausu og mun hann gegna forstjórastöðunni til 4. mars.

Tímabært að leita á ný mið

Spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að segja starfi sínu lausu svarar Björn að meginástæða uppsagnarinnar sé að honum þyki tímabært að leita á ný mið eftir að hafa leitt sjúkrahúsið í gegnum miklar breytingar.

„Við höfum farið í gegnum heimsfaraldur og miklar krísur í kringum fjárhag, skipulag og sjálfstraust spítalans. Höfum farið frá því að vera í fjárhagslegum glundroða yfir í að vera fleiri ár í röð með rekstrarlegan stöðugleika,“ segir hann.

„Við höfum breyst úr því að vera með fleiri yfirmenn en opin rúm og erum búin að fjölga rúmum og fækka yfirmönnum. Við erum búin að vera spítali sem ekki var tekið mark á alþjóðlega yfir í að vera viðurkenndur sem besta sjúkrahús í Evrópu og númer sex í heiminum.“

Ótrúlega ánægður

Síðast í sumar hafi bæst í áskoranir sjúkrahússins, er mæta þurfti þeim erfiðleikum sem verðbólgan hefur haft í för með sér.

Auk þess hafi verið knýjandi þörf á að styrkja stoðir rekstursins vegna breytinga sem gerðar voru á lífeyrissjóðskerfinu í Svíþjóð sem Björn segir að hafi kostað sjúkrahúsið rúma tvo milljarða sænskra króna.

„Þegar ég fékk bráðabirgðatölurnar fyrir árið í síðustu viku í hendurnar var ég ótrúlega ánægður með árangurinn. Fannst mér rétt að nýta tækifærið til að finna annan starfsvettvang og tími til kominn fyrir næsta að taka við keflinu.“

Gaman fyrir mig og mína

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter greindi frá því fyrr í mánuðinum að Björn hefði verið orðaður við framboð til forseta Íslands. Spurður hvort það sé næsta skref neitar hann því.

„Nei. Það litla sem ég hef verið spurður um það hefur þó komið mér á óvart og það er bara gaman fyrir mig og mína að maður sé nefndur í þessu samhengi, en ég held það muni ekki henta mér og er ekki á leið í framboð.“

Björn segir ekkert ákveðið hvað taki við en að fyrir liggi nokkur boð um störf og kveðst hann ætla að taka sér tíma til að skoða næstu skref.

Þó hann telji ekki rétt að tjá sig á þessum tímapunkti hvaða störf séu til skoðunar getur hann upplýst að hann sé ekki á leið til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert