Fótbolti

„Vona að þessir stóru menn með engan heila muni stöðva þetta stríð“

Sindri Sverrisson skrifar
Mircea Lucescu gerði Dynamo Kiev að úkraínskum meistara á síðustu leiktíð.
Mircea Lucescu gerði Dynamo Kiev að úkraínskum meistara á síðustu leiktíð. Getty/Pavlo Bagmot/Ukrinform

Rúmenski knattspyrnustjórinn Mircea Lucescu, sem stýrir Dymamo Kiev í Úkraínu, segist verða að sýna gott fordæmi og ætlar ekki að yfirgefa Kænugarð þrátt fyrir innrás Rússa í landið og sprengingar í borginni.

Keppni í úkraínsku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur verið frestað um þrjátíu daga vegna ástandsins í landinu. Hún átti að hefjast að nýju eftir vetrarfrí á morgun.

Hinn 76 ára gamli Lucescu, sem gerði Dynamo Kiev að úkraínskum meistara í fyrra, býr á æfingasvæði félagsins og ætlar ekki að flýja til Rúmeníu að svo stöddu. 

Hann minnti á að hann hefði verið þjálfari Shaktar Donetsk þegar til vopnaðra átaka kom á milli aðskilnaðarsinna á bandi Rússa og herliðs Úkraínu.

„Ég mun ekki fara frá Kiev til Rúmeníu því ég er ekki heigull. Ég fór ekki einu sinni þegar brjálæðið byrjaði í Donetsk 2014. Ég get ekki gert það. Það yrði neikvætt fordæmi fyrir alla og myndi ýta undir ótta og ringulreið. Hvernig gæti ég gert það?“ spurði Lucescu í viðtali við Fanatik.

„Ég vona að þessir stóru menn með engan heila muni stöðva þetta stríð. Ég hélt að til þessa kæmi aldrei,“ sagði Lucescu.

Eiginkona hans, Neli, átti pantað flug til Kiev á morgun en hætti við að koma til Úkraínu.

Fyrirliði Dynamo Kiev, Serhiy Sydorchuk, skrifaði færslu á Instagram: „Á svona erfiðum tímum styð ég alla þá sem að berjast fyrir því að halda landinu okkar sjálfstæðu. Ég þakka stríðsmönnum okkar, diplómötum og öðrum löndum okkar sem reyna allt til að tryggja sjálfstæði landsins okkar. Dýrð sé Úkraínu!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.